Bókin Leitin að tilgangi lífsins, sem verið hefur uppseld hjá útgefanda um nokkurt skeið, hefur nú verið endurútgefin. Í tilefni þessa verður efnt til stuttrar dagskrár um bókina á morgun kl. 15.30 í Norræna húsinu í Vatnsmýrinni.
Þar mun Róbert H. Haraldsson, dósent í heimspeki við Háskóla Íslands, halda stutt erindi um bókina sem hann nefnir "Leitin að tilgangi lífsins andspænis hinu illa". Að fyrirlestri loknum verður afhentur styrkur í minningu höfundarins Viktors E. Frankl en í útgáfusamningi óskaði höfundur eftir því að höfundarlaun hans fyrir bókina rynnu til málefnis sem snertir börn. Léttar veitingar verða í boði að dagskrá lokinni og einnig verður hægt að kaupa bókina á sérstöku kynningarverði.
Leitin að tilgangi lífsins kom út á vegum Siðfræðistofnunar og Háskólaútgáfunnar í þýðingu Hólmfríðar Gunnarsdóttur árið 1997.
Höfundur bókarinnar, Viktor E. Frankl, var austurrískur geðlæknir og upphafsmaður kenningar í sálarfræði sem nefnd er lógóþerapía eða tilgangsmeðferð. Þar er lögð áhersla á að í lífi sérhvers manns sé einstakur tilgangur sem hver og einn verði að finna fyrir sjálfan sig.
Frankl sat í fangabúðum nasista og notaði reynslu sína úr fangabúðunum sem undirstöður kenninga sinna. Frásögnin úr fangabúðunum hefur fyrst og fremst þann tilgang að sýna fram á gildi kenningarinnar en ekki að rekja hörmungar fangabúðarlífsins."
Tekið héðan (Fréttablaðið 4, jan)