Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2006

Ein hissa!

Tíminn líður svo hratt hjá mér að það liggur við að ég hoppi yfir dag og dag :)

Í morgun fór ég út í Odda og stóra planið var að læra yfir mig og skjótast á fyrirlestra á árlegum viðburði sem félagsvísindadeild stóð fyrir. Það var nú þvílíka rigningin að ég hljóp við fót alla leiðina frá bílnum og inn í Odda.

Líklega hef ég ekki verið fyllilega vöknuð, hef þá ekið hina vanabundnu leið á autopilotinum ;) Nema hvað, þegar ég kem að stiganum og ætla mér að storma upp hann þá snarstoppa ég því á móti mér flæddi birta sem ég ekki þekkti á þessum stað.

Stiginn var eitthvað svo hvítur að ég held að ómeðvitað hafi ég haldið að ég væri í vitlausri byggingu. Ég andaði nú djúpt (eða þannig ;)) og áttaði mig á því að stiginn í Odda var í sparifötunum sýnum og einhvers staðar undir handriðinu voru ljós. Þetta var nú bara flott!!!

Nóg með það, ég hélt nú áfram upp sitigann og þegar ég kem á hæð 2 þar sem ég læri oft þá var allt breytt þar. Engir stólar og engin borð nema þau sem lágu saman á hvolfi. Nú var áreynsla stigagöngunnar farin að skila sér sér, blóðið að renna hraðar til heilans.

Einmitt ......Þjóðarspegillinn var aðal atriðið í dag og engin kennsla neins staðar. Það hefði svo sem getað farið fram hjá mér því að ég er ekki í fyrirlestrum á föstudögum. Áfram veginn upp stigann stefndi ég og viti menn þar voru nokkrir stólar eftir og nokkur borð.

það var gott að koma upp úr 8 því ekki var mikið pláss á svæðinu til að læra. Ég ætlaði þá að bregða mér í einu tölvustofuna sem er með tölvur sem innihlada ákveðið forrit sem ég er að vinna í í hugfræðinni en nei nei þá var próf í gangi þar.

Já þetta var einn stór brandari. Ég kom mér þægilega fyrir, fór svo niður á kaffistofu og fékk mér kaffi svona til að ganga úr skugga um að þetta væri ekki draumur.

Það rættist nú síðan vel úr deginum og ekkert sem ég sé eftir nema þá helst það að hafa ekki tekið mér tíma í gær til þess að henda hér inn dagskránni svo að þeir sem áhuga höfðu hefðu getað mætt og hlustað á eitthvað af þessum frábæru erindum sem flutt voru.

það var margt spennandi og þurfti ég að velja og hafna því að sum erindin sem mig langaði til að hlusta á voru flutt á sama tíma.

Nú tekur alvaran við hjá mér og mun ég sitja með sveittann skallan yfir heimaprófi í Töl III væntanlega alla helgina en ef svo vel vill til að þetta gangi súper dúper vel hjá mér þá bíður mín eitt stykki ritgerð sem ég þarf líka að klára innan fjögurra daga. Ég hlakka nú meira til þess verkefnis enda umfjöllun um ahrif kannabisefna á heilann (the brain is my favorite)

Sem sagt ekkert að hægjast um hjá mér. Hvernig er þetta eru ekki að koma jól? 

 


Rjómablíða og bros á vör

Ég er nýkomin úr sundi með strákunum. Það var nú svolítið loftkalt til að byrja með en svo kom blessuð sólin upp og þá breyttist allt. við erum nú ekki vön að fara svona snemma á sunnudagsmorgni en þetta var hin fínasta ferð.

Það var ekkert smá hressandi að byrja daginn svona því að fyrir liggur hjá mér í dag að lesa og lesa hugfræði til undirbúnings fyrir hlutapróf. Í lauginni hitti ég konu sem ég hef aldrei hitt áður svo að ég viti til hún bauð mér góðan daginn og tók það sérstaklega fram að ég hafi brosað svo fallega til hennar :)

Þetta var nú að ég held þetta fasta bros sem er á andlitinu á mér og nokkrir hafa haft orð á undanfarin ár. Ekki veit ég hvað veldur því að' andlit mitt hefur mótast á þennan hátt en ef til vill er það bara það að ég hef umgengist mikið af hressu og skemmtilegu fólki og þar af leiðandi hef ég ekki bara velst í gegnum lífið, heldur hef ég velst um af hlátri í gegnum lífið! Nú svo fæddist ég ekki í gær þannig að hrukkurnar mínar (sérlega þær í kringum augun) sveigjast upp á við hehe. Þannig er það nú að ég þarf ekki að brosa mikið til þess að allt andlitið fari af stað :)

Ég var henni auðvitað sammála að það væri afskaplega gaman að vera í kringum brosandi fólk (ekki vantar nú hógværðina) og vildum við æstar eiga okkar þátt í því að þessi hópur færi stækkandi. 

Ég þakkaði nú konunni fyrir hólið sem ég fékk fyrir fasta brosið mitt og gekk sæl og BROSANDI, nema hvað.... út í bíl. Nú er ég tilbúin til að svolgra í mig alla þá þekkingu sem bækurnar bjóða upp á um tungumálið, raddböndin, sjónina , heyrnina ofl. skemmtilegt.

 


Árlegur vísindadagur sálfræðinga var í dag.

Í dag var árlegur vísindadagur sálfræðinga haldinn. Þarna voru samankomnir sálfræðingar af ýmsum sérsviðum og sálfræðinemar, þ.e.a.s. sem ég kannaðist við, bæði framhaldsnemar en einnig annars og þriðja árs nemar . Þarna voru mörg áhugaverð erindi flutt og sé ég ekki eftir því að hafa valið að nota daginn í að vera áheyrandi þar. Sum erindin voru áhugaverðari fyrir mig en önnur eins og gengur og gerist en mig langar þó sérlega að nefna eitt.

Læknaráðserindið sem Jón Friðrik Sigurðsson flutti var um eftirfarandi.


Þjónustusamningur LSH og heilsugæslu um hugræna atferlismeðferð fyrir sjúklinga með þunglyndi og kvíðaraskanir

 

Í aðalatriðum þá gengur hann út á að heimilislæknir ákveður hvort vísa eigi skjóstæðingi til sálfræðings sem starfar með viðkomandi heilsugæslu. Skjólstæðingur þarf ekki að vera með greiningu til þess að fara til sálfræðingsins í meðferð við þunglyndi eða kvíðaröskun. Gjald sjúklings er komugjald á heilsugæsluna. Nú er ákveðið rannsóknarstarf í gangi varðandi þennan þjónustusamning en það sem nú þegar er komið í ljós lofar góðu.

 

það sem mér finnst jákvætt við þetta er að

  • fleiri einstaklingar geta leitað sér hjálpar (margir hafa ef til vill ekki haft efni á því)
  • auðvelt er fyrir einstaklinga að fara til heimilislæknis og áfram veginn frá honum.
  • auðveldara verður að veita einstaklingum hjálp snemma í ferlinu og ef til vill getur það komið í veg fyrir frekari vanda sem annars gæti hugsanlega vaxið.
  • Lífsgæði og lífsgleði gætu orðið oftar hlutskipti fleiri einstaklinga heldur en er reyndin í dag

Ég vona það innilega að þetta verkefni gangi óskum framar og að í framtíðinni munu sálfræðingar starfa á öllum heilsugæslustöðvum í landinu., til þjónustu reiðubúnir fyrir þá sem hafa lent í krýsu í lífi sínu.

Margrét Bárðardóttir og Hafrún Kristjánsdóttir voru einnig með forvitnilegt erindi um sjálfstyrkingar námskeið sem þær halda. Ég er ekki með neina tengla á þær stöllur en mér fannst þetta afar áhugavert sem þær lögðu til málanna og þeir sem eru að spá í slík námskeið ættu að leita þær uppi og kynna sér það sem þær hafa upp á að bjóða.

Ég læt hér fylgja með dagskrá vísindadagsins                   

 

Dagskrá vísindadags sálfræðinga

á geðsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss

 

Sálfræðingar á geðsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss halda sinn árlega vísindadag í fimmta sinn föstudaginn 20. október næstkomandi í Hringsalnum á Barnaspítalanum

 

Á vísindadeginum verður sagt frá nýlegum rannsóknum sálfræðinga og samstarfsmanna þeirra á sviðinu og áhugaverð meðferðartilfelli kynnt, auk þess sem veggspjöld er lýsa niðurstöðum rannsókna verða til sýnis

 

9:00-9:30       Kynning á sálfræðiþjónustu geðsviðs LSH

                        Jón Friðrik Sigurðsson

9:30-9:50       Atferlismótun í skóla hjá 10 ára dreng með kvíðaröskun

                        Berglind Brynjólfsdóttir og Magnús Ólafsson

9:50-10:10     Hugræn atferlismeðferð í hópi fyrir unglinga með félagsfælni

                        Guðmundur Skarphéðinsson, Agnes Huld Hrafnsdóttir og Sóley Dröfn Davíðsdóttir     

10:10-10:30  Réttmæti skimunartækja sem meta kvíða og þunglyndi meðal unglinga – Rannsókn á klínísku úrtaki

                        Guðmundur Skarphéðinsson, Bertrand Lauth, Sigurður Rafn A. Levy og Brynjar Emilsson

10:30-10:50                                                                   Kaffihlé

10:50-11:10  Stafakerfi barnadeildar – ABC – Atferlisfræði eða hvað?

                        Sigurður Rafn A. Levý

11:10-11:30  Langvinn áfallastreita í kjölfar dauðaslysa

                        Eiríkur Líndal

11:30-11:50  Gjörhygli, sjálfstraust og samskipti

                        Hafrún Kristjánsdóttir og Margrét Bárðardóttir

11:50-12:10  Einstaklingsmeðferð í göngudeild

                        Þórey E. Heiðarsdóttir

12:10-13:00                                                                   Hádegishlé

13:00-14:00  Læknaráðserindi:

Hvernig gengur?
Þjónustusamningur LSH og heilsugæslu um hugræna atferlismeðferð fyrir sjúklinga með þunglyndi og kvíðaraskanir

                        Jón Friðrik Sigurðsson, Agnes Agnarsdóttir, Hafrún Kristjánsdóttir, Halldóra Ólafsdóttir, o.fl.

14:00-14:20  Samanburður á tveimur sálfræðilegum prófum sem meta þunglyndi eftir barnsburð

                    Linda Bára Lýðsdóttir, Halldóra Ólafsdóttir, Hilda Hrund Cortes, Pétur Tyrfingsson, María Hrönn Nikulásdóttir og Jón Friðrik Sigurðsson

14:20-14:40                                                                   Kaffihlé

14:40-15:00  Áleitið, ógeðslegt og hræðilegt – Keimlík þráhyggja meðal nokkurra ungra kvenna

                        Pétur Tyrfingsson

15:00-15:20  Mat á alvarleika persónuleikavandamála

                        Ragnar Pétur Ólafsson

15:20-15:40  Ferð skjólstæðings gegnum hópmeðferðarúrræði á LSH

                        Hafrún Kristjánsdóttir

15:40-16:00  Árangur hugrænnar atferlismeðferðar við félagsfælni í hálfopnum hóp

                        Brynjar Halldórsson, Sóley Dröfn Davíðsdóttir, Daníel Þór Ólason og Sigurbjörg J. Ludvigsdóttir


Erfitt að eiga við elli kerlingu nema ef væri að skella sér í Bláa lónið

Bandaríkjamenn eyddu þremur og hálfum milljon krónum í steralyf sem talið var að myndi hægja á elli kerlingu. Nú hefur hins vegar komið í ljós að lyfið hefur mun minni áhrif en auglýst var. 

Ég hef nú ekki haft mikinn tíma undanfarið til þess að lesa fréttir nema á þvílíkum hraðahlaupum að það er nú bara mesta furða að eitthvað sitji eftir hjá mér ;)

Ég minnist þess þó að hafa einhvern af síðustu þremur dögunum lesið grein í Blaðinu eða Fréttablaðinu um hin góðu áhrif sem þörungar í Bláa lóninu hafa á húðina. Nýlegar rannsóknir eru þar sagðar benda til þess að áhrifin vinni gegn öldrun húðarinnar en styrki hana einnig.

Þannig að þá er bara að drífa sig í Lónið fyrir þá sem komast og  svo verður nú varla langt að bíða þess að vörulína komi frá þeim sem auðveldar öllum þeim sem ekki komast á staðinn :)


mbl.is Lítið gagn í steralyfjum gegn öldrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaldhæðnislegt

Þetta er bráðfyndið á sama tíma og það er sorglegt. Maria verður að segja af sér þar sem upp um hana komst varðandi skattsvik. ástæðan sem hún gaf var sú að hún hafi verið tilneydd til þess að gera þetta vegna fjárhagserfiðleika en þegar sænskur bloggari aflaði sér upplýsinga um tekjur þeirra hjóna þá kom annað í ljós.

Nú er líklegt að hún fá ríflegan starfslokasamning eftir aðeins 8 daga setu sem ráðherra (Nota Bene VIÐSKIPATARÁÐHERRA). Þegar upp var staðið þá lítur nú út fyrir að skattsvikin muni nú skila henni þokkalegri upphæð.

Hvernig er það er ekki eitthvað að í kerfinu? Hér sit ég og hristi bara höfuðið í gríð og erg. 


mbl.is Maria Borelius gæti fengið milljónir króna vegna starfslokanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggarar geta verið til bóta á margan hátt

Borgaralegur blaðamaður ágætis nafn fyrir þá bloggara semvelja að blogga um ýmis konar málefni sem tengjast samfélagi okkar eins og sænski bloggarinn Ljungkvist þegar hann aflaði sér upplýsinga um tekjur Borelius hjónanna til þess að hrekja eða staðfesta orð Mariu ráðherra þess eðlis að hún hafi orðið að svikja undan skatti til þess að geta haft börnin sín hjá dagmæðrum.

Ljungkvist og bloggarar sem líkjast honum eiga allan minn stuðning. Oft er það nú þannig að þegar þú bloggar til að benda á eitthvað sem betur mætti fara eða sem ekki er "rétt " þá færðu alls konar viðbrögð en bloggið þitt gæti hugsanlega skilað jákvæðum breytingum og það ekki bara varandi það tilfelli sem þú fjallar um heldur almennt fyrir mörg önnur lík í framtíðinni.

 


mbl.is Bloggari varð sænskum ráðherra að falli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðastliðinn vetur var fyrsti veturinn minn án nagla

Það var erfið ákvörðun að kaupa heilsársdekk frekar en nelgd. Nokkrum sinnum yfir veturinn var ég svolítið óörugg en aldrei lenti ég í neinum vandræðum með þetta. Síðasti vetur var reyndar léttur vetur hér fyrir sunnan svona ef við erum að tala um snjó en það komu nokkrir hálkudagar.

Það eru einmitt dagarnir sem ég vil helst vera á negldum. Mér var samt oft hugsað til rykmengunarinnar sem nagladekkin valda og allra þeirra sem eru með léleg lungu. Þegar upp var staðið þá var ég mjög sátt með ákvörðun okkar hjóna að kaupa ekki nelgd.

Ég vona sannarlega að jákvæð hvatning nægi til þess að menn og konur aka varlega á veturnar á ónegldu dekkjunum sínum og að ekki þurfi að grípa til skattlagningar eða annarra þvingana. 


mbl.is Götur verða úðaðar með bindiefni í vetur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hef nú alltaf verið mikið gefin fyrir miklar annir en......

Fyrr má nú rota en dauðrota! Sennilega hef ég nú einhvern tímann áður haft svona mikið að gera, ég er bara búin að gleyma því ;)

Ég sé nú svo sem ekki fyrir endann á þessu fyrr en upp úr miðjum nóvember að ég held. Mér finnst hræðilegt að dragast aftur úr og hef því nánast lært yfir mig undanfarna daga. Það er þó bót í máli að flest af þessu er svo áhugavert að ég týni mér í því.

Það var hér um daginn að ég sat á ganginum upp í Háskólabíó að ég heyrði á tal nemenda á 1. ári í Sálfræði. Þeir voru að glíma við ýmis hugtök í tölfræði. Ég þurfti nú bara að sitja á mér að fara ekki yfir til þeirra og leysa úr pælingum þeirra :) Í staðinn reyndi ég allt hvað ég gat til að einbeita mér að hugfræðinni enda afar spennandi efni um hreina tóna, tónkvíslar og heyrnina.

Hugurinn leitaði til fyrsta ársins míns og þeirra stunda sem ég og samnemendur mínir vorum í sömu sporum og nýnemar nú og að sjálfsögðu með eldri nema í umhverfinu sem sjálfsagt hafa hugsað eitthvað líkt og ég nú.

Það er svo sem ekkert nýtt undir sólinni. Allt endur tekur sig aftur og aftur bara nýir maurar komnir í hlutverkin. Mér var hlátur í huga yfir þessari uppákomu.

Í dag hef ég nú bara lifað þokkalega venjulegu lífi að undanskildu því að ég var að vinna upp smá lestur í félagslegu sálfræðinni en annars bara að sjæna svolítið til hjá mér og rifja upp hvernig það er að vera húsmóðir. Þetta á ég nú að þakka góðri samvinnu samnemanda í tölfræði enokkur gekk nokkuð vel að leysa skilaverkefni þessarar helgar og græddi ég því heilan dag á því!

Ég settist meira að segja í gærkvöldi yfir fréttirnar en það hef ég nú ekki leyft mér í nokkra daga og er því bara eins og hver önnur geimvera þegar fólk talar um daginn og veginn. Það var nú svolítið fyndið að ætla að slaka á fyrir framan kassann þegar Gísli Marteinn geislaði af adrenalíni eða þannig. Það er nú bara nokkuð langt síðan ég hef heyrt svona heitar umræður eins og þessar um hlerunarmálin. ég sem ætlaði að slaka á fyrir framan sjónvarpið ;)

 


Blessuð sé minning hans

Dóri bróðir hans pabba hefur nú kvatt þetta líf og fylgdum við honum í dag. Blessuð sé minning hans. Þá eru ömmur og afar, mamma og pabbi og öll systkini þeirra farin. Það er skrítið til þess að hugsa að við syskinin séum nú orðin elsta kynslóðin.

Svona er gangur lífsins. Klukkan tifar og hvert ár, hver mánuður, hver vika, já hver dagur  getur skipt sköpum. Það er samt svo einkennilegt að sú hugsun er líklegust til þess að koma upp þegar alvarleg slys ber að höndum eða við jarðafarir.

Á þeim stundum förum við að hugsa um það hvað lífið er dýrmætt og hve lítið við gerum að því að hittast. Ég man eftir því undanfarnar 4 - 6 jarðafarir að eitthvert frændsystkina minna hafi haft orð á því að nú ættum við að koma saman við annars konar tækifæri.

Svo líða dagar, vikur og jafnvel ár eða þar til boðað er til næstu jarðafarar. Þetta er víst gangur lífsins. Allt gerist svo hratt og allir hafa svo mikið að gera í sínu daglega lífi. Ég er sannarleg engin undantekning frá því.

Tilgangur minn með því að setja þessar hugsanir niður á blað er aðallega til þess að minna mig á hvað ég og fleiri viljum, ef til vill mun það verða hvatning til þess að hrinda því í framkvæmd. 


Persónuleikinn

Enginn afgangstími til að blogga þessa dagana. Ég hef ekki einu sinni gefið mér tíma til að kíkja hér inn í þetta annars ágæta samfélag. Mér varð hugsað til bloggsamfélagsins í fyrirlestratíma í félagslegri sálfræði í gær.

Fyrirlesturinn fjallaði meðal annars um það hvernig og hvar við staðsetjum okkur í hópum. Hvar okkar hópur er staðsettur í samfélaginu í heild t.d. viðurkenndur, vinsæll eða minna áberandi hópur og hvernig við sem einstaklingar finnum okkar innan þess hóps sem við tilheyrum.

Það var gaman að rifja sumarið og haustið upp en það ser sá tími sem ég hef verið virkust í blogginu enda hafði ég meiri tíma þá en nú. Ég sakna nú samt samfélagsins og kíki af og til inn á þær síður sem ég las daglega eða jafnvel tvisvar á dag ;)

Núna eru aðalhóparnir mínir fjölskyldan, skólinn og vinnan og lítill tími aflögu fyrir eitthvað umfram það. Skólasamfélagið er áhugavert og þar er fullt af einstaklingum sem er sérlega gaman að eiga samskipti við.  Ég held nú að sálfræðinemar séu ekkert öðruvísi en annað fólk og tel líklegt að nemar í öðrum skorum séu að upplifa þetta spennandi samfélag eins og ég. Það er nú samt þannig að umræður verða meira lifandi og áhugaverðari eftir því sem þú ert meira innviklaður inn í þær. 

Í gær var ég að ljúka við að skrifa ritgerð um persónuleikabreytingar vegna höfðumeiðsla og þá sérstaklega vegna meiðsla á framheila. Mér varð hugsað til allra þeirra slysa sem hafa orðið í umferðinni í ár. Greinarnar sem ég las fjölluðu sérstaklega um hatvísa árásarhneigð eða minnkandi getu til þess að stjórna tilfinningum sínum. Nú er ekki hægt að tala um að skaði á framheila  orsaki hvatvísa árásarhneigð en í þeim rannsóknum sem ég las á pubmed.com fundust tengsl á milli þessara þátta.

Ég velti fyrir mér í framhaldi af því möguleikanum á því að byggja heilabörkinn upp þar sem einnig hefur komið í ljós að heilabörkurinn heldur áfram að breytast langt fram eftir aldri og fer það eftir því hvaða hegðun þú endurtekur oftast. Rannsóknir hafa til dæmis verið gerðar á breytingum á heilaberki hjá fólki sem hugleiddi (einbeitti sér að öndun sinni) í rúmlega 30 mínútur á dag fimm daga vikunnar. Mér finnst þetta mjög áhugavert og ætla mér að skoða þetta betur, fylgjast með nýjum rannsóknum á þessu sviði. Annars er mikið af áhugaverðum greinum í fullri lengd á pubmed og hvet ég áhugasama til að notfæra sér það.


Næsta síða »

Höfundur

Pálína Erna Ásgeirsdóttir
Pálína Erna Ásgeirsdóttir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband